Átt þú rétt á slysabótum?
Árangursrík innheimta slysabóta krefst náinnar samvinnu lögmanns og hins slasaða
Við hjá Megin lögmannsstofu leggjum okkur fram um að veita persónulega og góða árangursmiðaða þjónustu. Sá lögmaður sem tekur málið að sér fylgir því frá upphafi til enda.
Umferðarslys/Vinnuslys/Frítímaslys
Umferðarslys eru í meirihluta þeirra slysa sem koma til kasta lögmanna stofunnar, en einnig taka þeir að sér uppgjör vinnuslysa, frítímaslysa og annarra slysa. Þá koma einnig upp mál þar sem reynir á svokallaða sjúklingatryggingu vegna læknamistaka. Þá taka lögmenn stofunnar einnig að sér að útbúa bótakröfur fyrir þolendur afbrota.
Bótaþættir
Bætur eru mismunandi eftir því um hvers konar slys er að ræða.
1. Umferðarslys: Sá sem slasast getur m.a. átt rétt á þjáningabótum,
örorkubótum og miskabótum. Uppgjör fer fram samkvæmt skaðabótalögum.
Hluti bótanna er staðlaður, eins og þjáningabætur, sem miðast við þann tíma
sem viðkomandi telst vera veikur vegna slyss. Miskabætur miða við
skerðingu á lífsgæðum viðkomandi. Bætur fyrir varanlega örorku eru bætur
fyrir framtíðartekjutap vegna slyssins og reiknast venjulega út frá aldri þess
slasaða og tekjum hans sl. þrjú ár fyrir slys. Í sumum tilvikum getur tjónþoli
átt rétt til dagpeningagreiðslna fyrir tímbundið tekjutap, að loknu því tímabili
sem vinnuveitandi greiðir. Þá greiðir tryggingafélag útlagðan kostnað vegna
læknismeðferðar, lyfja og sjúkraþjálfunar. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki
skiptir máli hvort viðkomandi er í rétti eða órétti, tryggingar eru fyrir hendi
sem eiga að bæta tjónið.
2. Vinnuslys: Allir launamenn eiga að vera tryggðir slysatryggingu launþega,
sem er vátrygging sem atvinnurekendum er skylt að hafa samkvæmt
kjarasamningi. Bótafjárhæðir eru staðlaðar. Um er að ræða bætur fyrir
varanlega læknisfræðilega örorku (miska), svo og bætur fyrir tímabundið
tekjutap, ef það á við. Ef örorka nær að lágmarki 10% þá getur viðkomandi
einnig átt rétt á bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Í sumum tilvikum, þegar
um er að ræða bótaskylt slys samkvæmt ábyrgðartryggingu atvinnurekanda,
geta bæst við sömu bótaflokkar og í umferðarslysum.
3. Frítímaslys: Margir eru með einhvers konar heimilistryggingu og innihalda
flestar þeirra slysatryggingu. Sumir eiga rétt til bóta úr sérstökum
slysatryggingar sem þeir hafa keypt hjá tryggingafélögum. Bótafjárhæðir eru
yfirleitt staðlaðar.
Í hverju felst aðstoð lögmanns í slysamálum?
Lögmenn gæta hagsmuna þeirra sem lenda í slysum og leiðbeina þeim um réttindi sem þeir kunna að eiga hjá tryggingafélögum, svo og öðrum aðilum, t.d. Tryggingastofnun, Sjúkratryggingum Íslands, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum, svo og hugsanlega út úr öðrum tryggingum sem viðkomandi er með eða nýtur góðs af vegna kjarasamninga eða annars.
Tryggingafélögin eru með lögfræðinga á sínum snærum og því nauðsynlegt fyrir þá sem verða fyrir slysi að hafa lögfræðing til að sinna sínum hagsmunum. Sá sem slasast þarf að gefa lögmanni umboð til þess að annast sína hagsmuni. Lögmaðurinn sér síðan um öll samskipti við tryggingafélag og aðra vegna málsins. Lögmaðurinn aflar læknisvottorða, lögregluskýrslna, skýrslna frá sjúkraþjálfurum og öðrum meðferðaraðilum og sér um að útbúa örorkumatsbeiðni.
Að fengnu örorkumati ráðleggur lögmaðurinn síðan skjólstæðingnum um framhald málsins í ljósi aðstæðna.
Hvernig eru slysamál gerð upp?
Þegar aflað hefur verið allra nauðsynlegra gagna í umferðarslysum og heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, sér lögmaðurinn um að útbúa örorkumatsbeiðni. Oftast eru tveir matsmenn tilnefndir til þess að framkvæma matið, annar af hálfu tryggingafélags og hinn sem lögmaður tilnefnir fyrir hönd þess slasaða. Sá slasaði fer síðan í skoðun og viðtal hjá matsmönnum. Að fenginni matsgerð er gengið til samninga við tryggingafélagið. Þannig er gengið frá flestum málum. Ef niðurstaða matsins er ekki ásættanleg er hægt að vísa málinu til Örorkunefndar. Þá þarf að fara fram annað örorkumat. Í örfáum tilvikum þarf að fara með mál fyrir dómstóla og dómkveðja
matsmenn til að meta afleiðingar slyss. Í öðrum slysamálum, s.s. frítímaslysum og slysum þar sem reynir á slysatryggingu launþega, er um að ræða eins læknis mat. Þar sér lögmaður um að afla gagna og útbúa matsbeiðni. Hægt er afla annars mats ef niðurstaða er óásættanleg.
Hvað tekur langan tíma að gera upp slysamál?
Það fer eftir eðli slyssins og alvarleika, en slys eru ekki gerð upp fyrr en svokölluðum stöðugleikapunkti er náð, þ.e. þegar heilsa viðkomandi eftir slysið er orðin stöðug. Örorkumat er venjulega ekki gert fyrr en amk eitt ár er liðið frá slysdegi, en stundum geta liðið allt upp í þrjú ár þangað til gengið er frá málinu.
Hvað kostar þjónustan?
Ef um umferðarslys er að ræða er lögmannsþjónustan að stærstum hluta greidd af tryggingafélaginu. Tjónþoli greiðir lögmanninum sinn hluta af þóknuninni þegar málið kemur til endanlegs uppgjörs. Í öðrum slysum, þegar um staðlaðar slysabætur er að ræða, greiðir tjónþoli sjálfur lögmannskostnað, yfirleitt gegn tímagjaldi.
Hvað á tjónþoli að gera sjálfur?
Mikilvægt er að leita strax til læknis eftir slys. Þá getur í sumum tilvikum verið
nauðsynlegt að gefa skýrslu hjá lögreglu. Mikilvægt er síðan að leita reglulega til læknis, annað hvort heimilislæknis eða sérfræðings, t.d. bæklunarlæknis, til þess að láta fylgjast vel með sér eftir slysið. Oft koma afleiðingar slysa ekki strax fram. Á þetta einkum við um hálshnykki og aðra stoðkerfisáverka sem geta komið fram síðar og leitt til þrálátra verkja. Einnig er nauðsynlegt að fylgja vel leiðbeiningum lækna og stunda sjúkraþjálfun og aðra þá meðferð er læknir kann að mæla með.
Rétt er að leita aðstoðar lögmanns við fyrsta tækifæri til þess að fá strax óháða ráðgjöf um réttindi og ráðleggingar fagmanns um framvindu málsins. Mikilvægt er að koma í veg fyrir tap á réttindum, en slysamál eru flókin og sérhæfð og nauðsynlegt að halda vel á málum, í góðri samvinnu tjónþola og lögmanns, til að ná sem bestum árangri. Ráðgjöf um hvort bótaréttur kunni að vera fyrir hendi er þér að kostnaðarlausu.
Lögmenn Megin lögmannsstofu sem sinna slysamálum eru:
Hjördís E Harðardóttir hrl — hjordis@megin.is
Valgerður D. Valdirmarsdóttir hrl — valgerdur@megin.is
Lögmennirnir hafa langa reynslu af uppgjöri slysamála og hafa starfsreynslu m.a.frá tryggingafélagi og lögmannsstofu sem hefur sérhæft sig í slysamálum. Þá hafa lögmennirnir verið í lögmennsku frá árinu 2001.
Ef þú hefur áhuga á frekari upplýsingum getur þú sent okkur tölvupóst, haft samband í gegnum formið eða heyrt í okkur í gegnum síma 530 1800.